1.11.2007 | 00:33
Um negrastráka
Stórum hópi Íslendinga finnst það mesta mannréttindamál í heimi að geta lesið bók um tíu litla negrastráka. Ef e-r bendir á að hvorki kvæðið, sagan eða myndirnar í bókinni séu fullkomlega eðlilegar verður maður var við e-a undarlega þvermóðsku sem er rökstudd á þann hátt að amma gamla, sem las alltaf bókina fyrir barnabörnin, hafi alls ekki verið rasisti, börnin sem lásu bókina hafi alls ekki áttað sig á neinum rasisma í henni eða að nú ætli forræðishyggjan að takmarka frelsi manna til að hugsa fyrir sig sjálfir, með því að banna og stranglega banna.
Það hefur ekki nokkur maður sem ég veit um lagt til að þessi bók verði bönnuð. Og málið snýst ekki um hvort þeir hvítu Íslendingar sem lesi bókina fyrir börnin sín séu rasistar eða hvort amma og afi hafi verið rasistar. Og allra síst snýst þetta um hvort börn séu svo klár að þau geti strax séð muninn á réttu og röngu. Krakkar eru að mörgu leyti klárir og fljótir að læra en þeir eru jafnframt fljótir að temja sér vonda siði og læra allt það sem fyrir þeim er haft, ef ekki er farið varlega.
En ég er svo sem ekki heilagur í þessu frekar en öðru. Ein vinsælasta bókin á þessu heimili heitir Litli Svarti Sambó og margir þekkja. Ég hef reglulega heyrt að bókin sé full af fordómum í garð blökkumanna en hún á hins vegar að gerast á Indlandi og lýsir snilldar samningatækni og klókindum aðalsöguhetjunnar sem endar fullklædd og með magafylli af pönnukökum. Það er því ekki hægt að líkja sögunni af Sambó við örlög litlu negradrengjanna.
Málið snýst um hvort eðlilegt sé að boðið sé upp á svona barnaefni í þjóðfélagi þar sem ört stækkandi hópur barna er dökkur á hörund. Ætlar e-r að segja mér að leikskólakennarar muni ekki hugsa sig tvisvar um áður en þeir lesa bókina fyrir krakkana á deildinni sinni ef eitt barn, eða fleiri, er dökkt á hörund, hvort sem þessi umræða hefði farið af stað eða ekki? Ætli það verði ekki e-r tvístígandi á jólaböllunum áður en lagið er sungið ef e-r "litlir negrar" eru viðstaddir? Hver ætli ástæðan sé fyrir því? Gæti hún verið sú að bókin er fordómafull og niðurlægjandi tímaskekkja fyrir þá aðila sem eiga nú þegar kannski dálítið erfitt vegna húðlitar. Ég hef a.m.k. kynnst því betur eftir því sem ég hitti fleiri Íslendinga hvað þeir geta verið miklir rasistar.
Í myndinni Festen eru mörg góð atriði. Eitt það minnisstæðasta er þegar svartur kærasti systurinnar er kominn í veisluna og bróðir hennar byrjar að syngja rasistasöngva. Ekki líður á löngu þar til allir gestirnir taka undir og á meðan reynir kærastinn að fá svör við því hvað sé verið að syngja um, en spurningarnar drukkna í hávaðanum. Ég efast um að atriðið eigi að sýna að allir veislugestirnir séu rasistar heldur kannski frekar hvað fólk getur verið ósmekklegt og tillitslaust gagnvart umhverfi sínu. Úr verður magnað atriði sem er pínlegt að horfa á. Viðbrögð fylgismanna bókarinnar minna um margt á þetta atriði. Þeir eiga að fá að lesa þessa bók og þá skipta tilfinningar annarra og tillitssemi engu máli.
Ef foreldrar þeldökkra barna lýsa áhyggjum sínum vegna bókarinnar er ástæða til að hlusta. Því frelsið á aldrei að skaða aðra, eða svo segja frjálshyggjupostularnir. Allra síst lítil börn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.