8.11.2007 | 12:01
Madrid
Madridarferðin var velheppnuð eins og búast mátti við. Mér líður satt að segja hvergi betur en í Madrid nema auðvitað með skyttunum mínum þremur nær hvar sem er á Íslandi. Borgin hefur hins vegar sína kosti og galla:
Kostir:
1. Metro-Metróið í Madrid er þriðja lengsta metrokerfi í heimi. Það er í raun stórmerkilegt í borg þar sem búa "aðeins" fimm milljónir. Þjónustan er frábær og lestirnar koma með stuttu millibili.
2. Næturbröltið-Við vorum í miðri viku en samt er alltaf e-r á ferli og það er ekkert mál að skella sér á veitingastað þó komið sé fram yfir miðnætti.
3. Santiago Bernabeu: Það er hrikalega gaman að lenda á góðum kvöldleik í Meistaradeildinni. Við vorum reyndar ótrúlega heppin með leik, sex mörk, vítaklúður, rautt spjald og þriggja stiga heimsklassamarkvarsla hjá Casillas á síðustu mínútunni.
4. Listasöfnin: Við hjónin erum kannski ekki mikið safnafólk en það er ekki hægt að sleppa því að fara á safn í Madrid. Thyssen Bornemisza varð fyrir valinu i þetta sinn en ég mæli með hinum stóru, sérstaklega Reina Sofia.
5. Café con leche: Það er ótrúlega ljúft að bregða sér inn á dæmigerðan stálbar með tapas, öli, churros sem dýft er í fljótandi heitt súkkulaði, spænskri tortillu og manchego osti. Þjónarnir klæddir í hvítar stutterma skyrtur, gamlir og reyndir í starfi, enda fer það ekki framhjá nokkrum manni þegar þeir æpa pöntun yfir staðinn við undirleik glamrandi leirtaus og flautandi kaffivéla. Það er nettur Þorsteinn joð í þessari lýsingu en hvað um það.
6. FNAC: Ég held að þetta sé frönsk keðja en verslunin í Madrid er fastur punktur hjá okkur hjónunum. Bækur, DVD, tímarit og alls kyns dót á 6 eða 7 hæðum.
7. Nokkurn veginn allt annað: Plaza Mayor, Chueca hommahverfið, Calle Arenal göngugatan og Plaza de Oriente milli Konungshallarinnar og Óperunnar.
Gallar:
1. El Corte Ingles: Drasl vöruhús sem maður kemst því miður varla hjá að versla í þó ekki sé nema til að ná sér í vatn. Skelfilegt starfsfólk og alltof hátt verð.
2. Real Madrid búðin: Ákveðin vonbrigði, engir DVD diskar með gömlum töktum eða retró treyjur. Aðeins of straumlínulagað fyrir minn smekk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.