18.10.2007 | 22:04
Neysluvara
Ég setti inn athugasemd hjá vini mínum um daginn vegna eilífðarumræðunnar um sölu á bjór og víni í verslunum. Þar sagðist ég vera sammála því að vín sé venjuleg neysluvara og eigi því heima í búðum.
Svo fór ég að velta þessu aðeins betur fyrir mér. Og komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að vín og bjór geti í raun aldrei talist venjuleg neysluvara. Það þýðir ekki að ég sé endilega á móti því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi. Ég er alveg til í að geta náð mér í kippu út í búð ef ég fæ skyndilega boð í partí eða býð fólki í heimsókn með stuttum fyrirvara. Það sem ég á við er að áfengi er sennilega eina varan sem gerir það að verkum að maður getur t.d. ekki sest undir stýri eftir neyslu þess þar sem það er einfaldlega bannað með lögum. Og ég efast um að margir séu á móti þeirri löggjöf og það er því viðurkennt af meirihluta landsmanna að áfengi brengli hugarástand það mikið að neytandinn geti ekki tekið þátt í þjóðfélaginu á eðlilegan hátt. Samt er ég alls ekki að vísa með þessu til alkóhólisma, hann er kapítuli út af fyrir sig.
Þannig verður áfengi aldrei lagt að jöfnu við skyr og majones og í raun líkara lyfjum. Ég hef sjaldan heyrt aðra en hörðustu frjálshyggjumenn halda því fram að lyfjasala verði gefin frjáls. Þá finnst mér ekki hægt að leggja þetta frumvarp að jöfnu við bjórbannið. Þar var ein tegund af e-m fáránlegum ástæðum tekin út og bönnuð meðan menn lágu hlandblautir af sjeneversjokki í sófanum heima hjá sér. Núna geta menn og konur náð sér í bjórinn sinn, rauðvínið sitt eða sjeneverinn sinn í næsta ríki án mikilla vandkvæða og úrvalið er ágætt. En ég viðurkenni fúslega að áfengissala er ekki hitamál a mínum bæ en sennilega er þetta fyrst og fremst prinsipmál fyrir þá sem sækja málið harðast.
Ég veit hins vegar fátt leiðinlegra en unga menn sem halda að tilvísun í 150 ára gamla frelsistuggu leysi öll mál samtímans og sé leiðin og lykillinn að fullkomnum heimi. Hann er flóknari en svo.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.