Kolaportið

Ég fór með dætur mínar í Kolaportið í dag en þangað hafði ég ekki komið í nokkuð langan tíma. Það verður seint sagt að mikið hafi breyst í portinu en það er ágætt að kíkja þangað öðru hverju til að finna e-ð drasl og finna fyrir því að Reykjavík eigi sinn eigin flóamarkað. Svona markaðir eru flestum borgum mikilvægir, og þó Kolaportið standi Rastro í Madrid eða Camden og Portobello í London nokkuð langt að baki, myndast nokkuð góð almúgastemmning á staðnum. Þess vegna eru hugmyndir Tollstjóra um stækkun bílastæðahúss í byggingunni, sem mun stöðva starfsemi portsins um tíma og skerða svæðið í framhaldinu, afar vondar. Ég held að yfirmenn hjá Tollstjóraembættinu ættu frekar að einbeita sér að því að hækka laun starfsmanna frekar en að eyða fjárframlögum í bílastæði.

Einn best hluti Kolaportsins er matarmarkaðurinn. Hrossakjöt, kartöflur, harðfiskur, hrogn, lifur og fleira "góðgæti" er á boðstólum ásamt bakkelsi frá Selfossi. Ég keypti kleinur og hafrakökur fyrir okkur og var sérstaklega spenntur fyrir höfrunum, því það er fátt betra en hafrakaka með rúsínum. Það var því um mikil vonbrigði að ræða þegar ég beit í fyrsta bitann af kökunni og í ljós kom að sennilega höfðu kökurnar verið geymdar í sama skáp og þvottaefni konunnar sem bakaði þær. Hafra- og rúsínubragðið var því blandað óskilgreindu sápubragði sem eyðilagði alla hafralöngun. Sem er óvenjulegt enda hef ég nýverið tekið að mér formennsku í Oatmeal Anonymus.

Sem minnir mig reyndar á nokkuð sem tengist haframjöli. Þegar ég var lítill fékk mér oft haframjöl með kakómalti og mjólk, og sparaði sjaldnast kakómaltið. Seinna fór ég að gera tilraunir með þessa blöndu og hellti kakómaltinu yfir haframjölið og stráði svo sykri út í hliðarnar allan hringinn. Svo passaði ég mig á því að hella bara mjólk yfir sykurinn en kakófjallið stóð tignarlegt eins og Fujifjall þar til ég vann mig inn í það eins og malarnámumaður við Ingólfsfjall. Ég hef heyrt um nokkrar góðar útfærslur af haframjöli með mjólk og kakómalti, sumar nota reyndar kakó, og e-n tímann sagði Jói vinur minn mér að þetta hefði verið kallað krúska heima hjá honum. Það finnst mér kostulegt heiti og vildi gjarna vita hvort fleiri kannist við þetta nafn og dásemdina sem felst í haframjöli með kakómalti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var mikið borðað á mínu bernskuheimili.  Það var notast við kakó og kallað kakósull. Sjálf komst ég aldrei uppá bragðið.
Ég man hins vegar eftir að hafa borðað franskbrauð með mæjónesi og vinkona mín át franskbraut með sykri! Getur þú eða lesendur lesendur þínir toppað þetta?

Unnur Birgisdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 15:40

2 identicon

Verð að tjá mig um kakósullið.  Ég át MIKIÐ svoleiðis. En það var bara ,,kokkað" á einn hátt: haframjöl í skál, gerð hola í miðjuna hvar hellt var kakói og sykri stráð yfir allt (miiiiikið af sykri) og svo mjólk hellt út á.  Hef reynt að fá börnin mín til að smakka en ekki tekist!
Eitt það besta sem ég fékk var líka franskbrauðsendi sem var búið að gera holu í, setja MIIIKIÐ smjör í holuna og svo tómatsósu ofaná það :-) djeddjað.

Laulau (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 21:27

3 identicon

Ég át oft svona haframjöl og kakómalt en síðan uppgötvaði ég að mér fannst betra að setja flórsykur útá í staðinn fyrir kakómaltið...

þórunn jakobsdóttir (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband