22.9.2007 | 23:57
Draumur
Ég var að klára að horfa á mynd sem heitir The science of sleep. Þokkalegasta mynd og Gael Garcia Bernal er yfirleitt ágætur. Samt ekki í sama klassa og Y tu mama tambien eða Mótorhjóladagbækurnar.
Myndin er að miklu leyti um skilin milli draums og veruleika, sem er sérstaklega skemmtilegt því mig dreymdi draum í dag sem ég er ekki enn búinn að átta mig hvort var í raun draumur eða veruleiki. Ég lá nefnilega með flensukvef í allan dag uppi í rúmi en á e-m tímapunkti var ég kominn á Laugardalsvöll þar sem Íslendingar öttu kappi við Letta. Á næstu stundu er ég kominn yfir í hina stúkuna og þar situr maður, sem líktist Friðriki 2000 ískyggilega mikið, og veifar bandaríska fánanum. Ég geri strax athugasemd við þetta en sé þá að fáninn er ekki í sínum venjulegu þremur litum heldur grænn og svartur. Þegar ég spyr Friðrik hvernig standi á þvi að hann mæti með bandaríska fánann á fótboltaleik reynir hann að útskyra fyrir mér að hann sé einungis að heiðra minningu þeirra hermanna sem björguðu Lettum undan ógn nasismans. Áður en ég næ að rökræða við hann um þátt Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni er ég aftur staddur í bólinu á Hjarðarhaga 56.
Og því spyr ég þig kæri sáli, hvað segir Draumráðningabókin um Friðrik 2000?
Athugasemdir
Úr Stóru Draumaráðningarbókinni eftir Símon Birgisson (útg. 2004):
Friðrik 2000
Að sjá Friðrik 2000 í draumi er merki um að þú hafir eitthvað að fela og sért ekki fullkomlega heiðarlegur við Bigga í Maus. Brosandi Friðrik 2000 er fyrir því að þú sjáir nýja hlið á einhverju sem þér fannst áður ómögulegt, t.d. skáldsögunni Seinna Lúkkið eftir Valla Sport.
Kjartan (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 01:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.