30.8.2006 | 12:21
Grillaður steggur
Hvernig er hægt að toppa steggjun þar sem Geir Ólafsson syngur My way, blautur og sólbekkjabrúnn, í gufunni á Hótel Loftleiðum? Og enda svo á Grillinu á Hótel Sögu þar sem steggurinn afvopnar steggjara sína með því að bjóða þeim í veislu á besta veitingahúsi landsins.
Uppákoman með Geir var kostuleg. Við vorum nýsestir í heita pottinn þegar birtist allt í einu þessi undarlega samblanda af Riff Raff úr Rocky Horror, Don Johnson í Miami Vice og Gollum. Með tan, gullkeðju og björgunarhring á byrjunarstigi. Ég fattaði ekki að þetta væri Ekki meir Geir fyrr en hann kallaði skrækri röddu: "eigið þið ekki að vera í stóra pottinum strákar" og átti við laugina. Hann settist svo makindalega með okkur í pottinn og reyndi að spjalla um stúkuna á Laugardalsvelli og eitt og annað því tengdu. Stuttu seinna kvöddum við kauða og skelltum okkur í gufu. Eftir smá stund er hurðin á gufunni rifin upp og inn stormar Geir, tekur í hendina á steggnum, óskar honum alls hins besta og byrjar svo að syngja My way. Á fullum styrk, með skræku ívafi, í þriggja fermetra gufu!! Fyrir þetta uppskar hann mikið klapp en ekki var laust við að e-r í hópnum væru vankaðir af bjánahrolli.
Steggurinn var himinlifandi og þegar komið var á Grillið tók hann öll völd, pantaði kampavín fyrir hópinn og lýsti því yfir að hann byði enda kæmi það í staðinn fyrir brúðkaupsveislu. Við urðum eins og sauðir í framan en hann gaf sig hvergi enda löngu vitað að þessi steggur gefur sig ekki auðveldlega. Við héldum því í fjögurra rétta óvissuferð að hætti kokksins, hvert öðru betra þó ég geti ómögulega endurtekið allt það sem í réttunum var. Með þessu sulluðum við í okkur kampavíni, hvítvíni, rauðvíni, eftirréttarvíni, kaffi og koníaki.
Fyrst ég er byrjaður að dæma veitingastaði er best að gefa Grillinu fullt hús fyrir mat, þjónustu, útsýni og stemmningu. Það gerist ekki betra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.