14.8.2006 | 10:46
Ísland-Spánn
Á miða á þennan leik á morgun og sem betur fer í nýju stúkunni. Þakið á gömlu stúkunni er nefnilega eins og net og það er ekki útilokað að það muni rigna þrátt fyrir einmuna veðurblíðu sumar. Það er verið að rifja upp fyrri viðureignir þessara þjóða á Marca og sagt sérstaklega frá síðasta leik sem Ísland vann 2-0 með mörkum frá Eyjólfi Sverrissyni og Dorvavur Orgylsson. Dorvavur var alltaf skeinuhættur.
Fór reyndar á annan viðburð um helgina. Morrinn stóð sig með prýði þó ég verði að viðurkenna að ég hefði viljað fá fleiri Smiths lög. Hefði líka verið gaman að sjá þessa goðsögn spila fyrir fullri höll. Kannski er mörgum sama hvort hann söng í Smiths eða Spandau Ballet. En hápunkturinn var Kristin Young sem heillaði salinn með silkimjúkum flutningi sínum. Var reyndar ekki alslæm og tvö lögin voru með Kate Bush áhrifum. Gæti verið verra.
Sá hins vegar ekki Sigurrós nema í sjónvarpi um daginn. Nú hef ég engan áhuga á að drulla yfir þá, sumt er gott og annað síðra. Lag eftir þá var t.d. notað með góðum árangri í Life Aquatic of Steve Zissou. Hins vegar er það þessi tilgerð sem grípur stóran hluta fólks sem sér þá á tónleikum. Það virðist ekki vera nóg að segja "mér fannst þeir bara mjög góðir" eða "fantagott gigg" heldur kemur alltaf e-ð svona "mér fannst hjartað í mér hreyfast í takt við skýin" eða "meira að segja lifrin í mér táraðist".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.