9.8.2006 | 17:17
Sundlaugakrítík
Mér tókst að prófa fjórar laugar á ferðalagi fjölskyldunnar og sá eina sem virtist mjög girnileg.
Hraunborgir: Nokkuð góð laug með tveimur pottum, vaðlaug og lítilli sundlaug. Róleg stemmning og gufubaðslykt í búningsklefunum. Allt mjög snyrtilegt en vantar smá útsýni. 3,5 af 5.
Reykholt: Þessi var á Topp 10 lista hjá mér og getur alveg hangið þar inni aðeins lengur. Fínir búningsklefar þar sem ég fékk sér klefa, góðir pottar og frumstæð en góð rennibraut. Steggjunarminningar setja þessa í fjórar stjörnur.
Selfoss: Ein besta laug landsins, tveir djúpir og góðir pottar með nuddtækjum a la Kópavogslaug, rennibraut í osti og önnur stór. Krakkalaug góð og svo er nokkuð hlý innilaug enda er þetta Sundhöll!! Fjórar stjörnur enda getur maður ekki verið frægur fyrir að gefa sundlaug á Selfossi meira en væri hún annars staðar...? Hver veit.
Sólheimar í Grímsnesi: Fór ekki í þessa laug enda er hún einungis fyrir íbúana en það var freistandi að stökkkva út í. Gömul laug í vel grónu rjóðri með potti. Þegar ég var að gægjast í gegnum girðinguna sá ég mann ganga tautandi inn um hliðið, einn með sjálfum sér í kyrrðinni. Þegar ég gáði betur sá ég að þetta var Sólheimagoðsögnin sjálf, Reynir Pétur. Þetta var eins og að koma til New York og sjá Woody Allen á gangi. Ég mæli með heimsókn til Sólheima en hef því miður ekki forsendur til að gefa lauginni stjörnur.
Höfn: Við vorum með fjölskyldunni hennar Sillu á Höfn og í nágrenni um Verslunarmannahelgina. Skelltum okkur tvisvar í laugina sem er allmikið komin til ára sinna. Í seinna skiptið var skelfileg táfýla í anddyrinu en laugin sjálf var laus við fnykinn. Þrír góðir pottar, ein vaðlaug sem var eins og sandpappír og laugin sjálf lítil en nokkuð góð. 3 af 5.
Athugasemdir
Ég skil þetta ekki frekar en fyrri daginn ... táfýlan í anddyrinu fær **** fyrir að vera svona skelfileg.
Jón Agnar Ólason, 11.8.2006 kl. 00:31
Það var ekki viðvarandi táfýla í anddyrinu, hún var bara í seinna skiptið og því e-m táfúlum gesti að kenna. Get ekki verið að draga laugina niður fyrir það enda væri harkalegt ef starfsmenn hennar hentu út öllum grunsamlegum skóm. Það er ekki heldur hægt að líta framhjá því að 3 af 5 er ígildi 6 af 10. Það var við fall í Háskólanum.
EG, 11.8.2006 kl. 11:26
Ég meinti nú að sjarminn við þessar sjúskuðu laugar almennt fer framhjá mér. ÉG gaf hins vegar táfýlunni stjörnunar fyrir að vera afgerandi og eftirminnileg.
Jón Agnar Ólason, 14.8.2006 kl. 22:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.