6.7.2007 | 14:22
Hana nú
Gleymið Konu, Á bleikum náttkjólum, Lifun, Ágætis byrjun og öllum hinum. Besta plata Íslandssögunnar er Hana nú með Villa Vill. Hvaða önnur plata er appelsínugul þannig að maður er dreginn aftur til tímabilsins þegar klósett voru brún og e-r hélt að það væri góð hugmynd að hafa grænt teppi og gula ofna í stíl. Og hvar annars staðar heyrir maður textasnilld sem byrjar á "þarna ert þú í þínum samfesting!".
Vilhjálmur Vilhjálmsson var afburða söngvari og lögin eru hvert öðru betra. Undirspilið er nett hallærislegt með fisléttu kántrýívafi, sem er tilvalið í bílinn úti á landi. Ekki má gleyma húmornum þegar Villi breytist úr ljótum andaraunga í fallegan svan í laginu Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin eða diskópsychdelíunni í Martröð. En bestur er Villi í Og co., Söknuði og Einhverntímann.
Ef Villi væri enn á lífi vissi enginn hver Elvis var.
Athugasemdir
Stórkostleg plata alveg hreint, góð í gegn. Persónulegt uppáhald hjá mér er "Jamaica", sem hlýtur eiginlega að vera fyrsta íslenska reggae-lagið. Gott og þarft brautryðjendastarf hjá Villa þar. Einnig finnst mér "Það er svo Skrýtið" alveg undursamlega látlaus og heillandi lagsmíð. Skemmtilegt líka að rifja upp að "Ég Labbaði í Bæinn" er fyrsta lagið sem spilað var á Rás 2 árið 1983. Einstaklega vel valið hjá Þorgeiri Ástvalds, Páli Þorsteins, Jóni Ólafs, Ásgeiri Tómas og co.
Og svo allir saman:
"Ég ætla mér að verða ferlega fær
og ferðast um öll lönd,
en geymum okkur grillur þær
því nú fer gagnfræðapróf í hönd!"
Kjartan (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 01:37
Búin að vera lengi í uppáhaldi þessi.
Hannes Heimir Friðbjörnsson, 8.7.2007 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.