21.6.2007 | 14:28
Sjutemm
Við Silla fórum á Air tónleikana um daginn. Ég er búinn að vera hrifinn af þessum franska dúett síðan Moon Safari kom út fyrir nokkuð mörgum árum og það var greinilegt að fleiri aðdáendur í Höllinni voru frá þeim tíma. Annars voru tónleikarnir góðir og enduðu á magnaðan hátt með fyrsta lagi Moon Safari. Þeir sem vilja heyra þann flutning geta farið inn á heimasíðu Dr. Gunna. http://www.this.is/drgunni/mp3/Air%20-%20La%20Femme%20dargent.mp3
Þegar ég var að rifja Air upp fyrir tónleikana datt ég óvart inn á nokkur lög með Serge Gainsbourg á ipodinum. Eins og margir vita er hann einn helsti áhrifavaldur Air og fleiri, og í raun alveg magnaður tónlistarmaður. Það þekkja flestir stunulagið fræga Je t´aime... moi non plus en mín minning um það lag er ansi sterk.
Þannig var að snemma sumars 1988 hélt ég 14 ára unglingurinn til útlanda ásamt foreldrum mínum, stútfullur af hvolpaviti og táfýlu. Hvort sem það var í tilefni af skattlausa árinu þá var splæst í leigubíl út á Leifsstöð. Þar sat ég á fullri ferð á Reykjanesbrautinni þegar þetta fræga lag byrjar að hljóma í útvarpinu. Sem var svo sem ekkert slæmt í sjálfu sér en það var greinilegt að leigubílstjóranum, gömlum kalli með skalla, gleraugu og yfirvaraskegg, þótti lagið forvitnilegt. Það var því ekki að sökum að spyrja að þegar Jane Birkin byrjaði að stynja frygðarlega í seinni hluta lagsins teygði kallinn sig í útvarpið og hækkaði í botn þannig að stunurnar ómuðu um bílinn. Og þarna sat ég og reyndi, eins og Austin Powers síðar, að hugsa um "Margaret Thatcher naked on a cold day", "Margaret Thatcher naked on a cold day". Með foreldra mína á sextugsaldri þétt mér við hlið.
Ég skelli inn þremur lögum með kallinum af youtube. Hann er auðvitað magnaður. Með nef á stærð við Grímsey og sígarettuna í hendinni.
http://www.youtube.com/watch?v=sHiMDB19Dyc&mode=related&search=
http://www.youtube.com/watch?v=ozmBA88Q0EA
http://www.youtube.com/watch?v=4p73ICnVKHU&mode=related&search=
Athugasemdir
Góður konsert, góður konsert. Sagan af taxamanninum sem tjúnaði lagið er frábær, kallar fram skælbros sem fyrr. Hverskonar leigari tjúnar climaxinn með vísitölufamilíuna í aftursætinu?! Alveg galið atriði.
En - af því þú ert svo fjári naskur á góða youtube-mola - grafðu nú upp myndskeið af Gainsbourg gamla þar sem hann er í beinni útsendingu í frönskum spjallþætti ásamt Whitney Houston þegar hún var á hátindinum. Gamla brýnið er blindfullt, ef ekki rammskakkt í ofanálag, og drafar þegar minnst varir á mjög franskri ensku; "Aaaæææ vönnnnt túúú föööhööögg juuuúúúú..."
Óþarfi að taka það fram að þáttastjórnandanum var lítt skemmt.
Jón Agnar Ólason, 22.6.2007 kl. 01:04
Hér er þetta óborganlega atriði:
http://youtube.com/watch?v=LMAHstZ565w
Þulurinn og þýðandinn stelur samt senunni: "He says you are great!"
Kjartan (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 01:26
Þvílík synd að þessi kall sé dauður. Algerlega magnaður þegar hann sver af sér að hafa bragðað áfengi þennan dag á þvoglumæltri frensku.
EG, 22.6.2007 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.