20.6.2007 | 11:31
Þrítugasti
Hvernig stendur á því að fjölskyldufaðir á fertugsaldri situr lamaður af stressi í stofunni heima hjá sér á 17. júní, bara vegna þess að 10 hvítklæddir leikmenn (og einn í dökku) eru að reyna að vinna titil suður á Spáni? Svo er fagnað taugaveiklislega þegar þeir hvítu jafna og þegar þriðja markið er í höfn er maður hálfpartinn kominn á hnén, hallandi sér aftur með kreppta hnefa og þenjandi hvern einasta vöðva í kroppnum. Eftirá er spennufall, maður er máttlaus og eirðarlaus eins og eftir stórt próf í háskólanum, og á meðan hlaupa leikmennirnir fram tilbaka á skjánum, óðir af gleði og á e-n undarlegan hátt finnst manni maður vera hluti af þessu öllu saman. VIÐ unnum titilinn.
En það versta er að það eru fleiri sem telja sig hluta af "okkur". Ég get ekki séð að Tom Cruise sé í tuttugu ára gamalli Real treyju sem Rafael Gordillo spilaði í gegn Sampdoria 1987, eins og einn og einn fjölskyldufaðir á Fróni. Samt er hann á vellinum og það sem meira er þá fer hann með liðinu út að borða um kvöldið og syngur með þeim þjóðsöngva frá Galisíu. Ég vona bara að það sé enginn á leið í Vísindakirkjuna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.