Róhan og Mordor

EG og SHE við Frostastaðavatn í nágrenni Landmannalauga

Kom heim áðan eftir stutt ferðalag um Suðurland og hálendið norðan Mýrdalsjökuls. Tókst reyndar að næla mér í flensu fyrstu nóttina og keyrði því hálf tuskulegur inn í Landmannalaugar á þriðjudeginum í frekar slæmu skyggni. Sé hins vegar ekki eftir einni mínútu af þessu ferðalagi enda hefur það verið draumur lengi að komast þangað. Í dag datt mér hins vegar ekkert betra í hug en að skella mér í sund á Hellu og er því kominn heim degi fyrr með beinverki og hita. Laugin verður hins vegar ekki dæmd á sanngjarnan hátt í ljósi aðstæðna en pottarnir eru góðir og sundlaugin þokkaleg. Vantar samt ákveðinn sveitasjarma.

Á ferðalaginu varð mér hins vegar, eins og oft áður, hugsað til þess hvað Ísland er kjörið sögusvið fyrir Hringadróttinssögu. Í Holta-og Landssveit þar sem við gistum eru hundruð hesta hlaupandi um tún og holt svo langt sem augað eygir.  Þar í nágrenninu ræður ríkjum höfðingi sem er ekki síður merkilegur en Þjóðann, konungur Róhan. Sjálfur sundkennarinn Ísólfur Gylfi Pálmason. Sum bæjarnöfnin hafa líka framandi heiti eins og Lunansholt, Dufþakseitthvað og síðast en ekki síst Litli Klofi og Pula. Þegar komið er nokkuð norður fyrir Galtalækjarskóg beygir maður til vesturs og keyrir Landmannaleið að Landmannalaugum. Á þessum slóðum líður manni eins og í Mordor þar sem Hekla grúfir yfir manni eins og Dómsdyngja og auðnin er svört og skuggaleg á köflum. Leiðin liggur m.a. um Dómadal, sem gæti auðveldlega hafa verið á korti Tolkiens en þegar komið er inn í Landmannalaugar líður manni eins og Mordor hafi tekist að sveipa sig öllum mögulegum og ómögulegum litum við fall Saurons. Við Silla stefnum líka að því að ganga Laugaveginn næsta sumar. Hann liggur m.a. um Emstrur sem hlýtur að vera eitt Hringadróttinslegasta örnefni landsins ásamt Ljósufjöllum á Snæfellsnesi og Trostansfirði fyrir vestan.

En hvað er Hringadróttinslegasta heiti Íslands? Það hlýtur að vera Hérað enda kæmi mér ekki á óvart ef það er Hobbiti á kassanum í Kaupfélagi Héraðsbúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á myndinni má sjá Orka sem hefur eignast Hobbita að vini í Mordor.

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 27.7.2006 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband