17.7.2006 | 13:59
Kolviðarneslaug
Ættarmót á Lýsuhóli um helgina. Góð stemmning að vanda þrátt fyrir slæmt veður enda vandfundin skemmtilegri ætt en afkomendur Ásu og Engilberts frá Grund í Súðavík. Á heimleiðinni var komið fínasta veður og því ekki um annað að ræða en að skella sér í sveitalaug. Fyrir valinu varð Kolviðarneslaug við Laugagerðisskóla, sem á sumrin breytist í Hótel Eldborg. Laugin er öll mosavaxin og slímug og í hana rennur sjóðheitt vatn beint úr heitavatnsrörinu þannig að hafa verður varann á. Á móti kemur að hún er heit og góð og jaðrar við pottahita á köflum. Heiti potturinn var hins vegar ekkert spes, svona plastdrasl sem finnst í flestum sumarbústöðum. Staðsetningin er góð, Haffjarðaráin rennur beint fyrir neðan en leiðinleg ryðguð bárujárnsgirðing byrgir sýn að hluta. Í stuttu máli góð sveitalaug en vantar smá rómantík. Þrjár af fimm.
Athugasemdir
"Laugin er öll mosavaxin og slímug"
"í hana rennur sjóðheitt vatn beint úr heitavatnsrörinu þannig að hafa verður varann á"
"Heiti potturinn [ ... ] svona plastdrasl sem finnst í flestum sumarbústöðum"
"leiðinleg ryðguð bárujárnsgirðing byrgir sýn"
Ég verð seint sami sveitalaugarómantíkerinn og þú, en ég sé bara ekki fyrir hvað þú ert að splæsa þremur stjörnum?! Prísaðu þig sælan að vera ekki kominn með bandorma og líkþorn af svona feigðarflansbusli, strákur! Haltu þig innan skynsemis- og borgarmarkanna.
Jón Agnar Ólason, 18.7.2006 kl. 00:25
Maður verður að hafa ákveðna tilfinningu fyrir góðri sveitalaug til að skilja þessa stjörnugjöf.Þetta er allt spurning um stað og stund. Hef meiri áhyggjur af fótsveppum í bænum en bandormum í Kolviðarneslaug.
EG, 18.7.2006 kl. 09:35
En mér finnst þessi laug ógissleg! sérstaklega þetta slím..... og ólystugir búningsklefar. Má alveg vera hreint þó það sé sveitó. Engin Gísli á Uppsölum í mér...
Laulau (IP-tala skráð) 18.7.2006 kl. 11:57
En mér finnst þessi laug ógissleg! sérstaklega þetta slím..... og ólystugir búningsklefar. Má alveg vera hreint þó það sé sveitó. Engin Gísli á Uppsölum í mér...
Laulau (IP-tala skráð) 18.7.2006 kl. 11:57
Ég efast um að þú hafir komið í þessa laug ef þér finnst búningsklefarnir ólystugir. Þeir eru nýlegir og mjög snyrtilegir. Jafnvel of snyrtilegir fyrir góða sveitalaug. Mosinn og slímið er ekki vegna sóðaskapar heldur er þetta 100% náttúruleg ölkelda. Fór reyndar illa með nokkra grunnskólanemendur á Lýsuhóli vorið 1989 en sannir Íslendingar eiga að þola þetta. Hins vegar getur sveitalaug verið sóðaleg og fráhrindandi en það verður þá að vera af öðrum ástæðum.
EG, 18.7.2006 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.