10.7.2006 | 12:45
Uppgjör
Veislan búin. Manni finnst þetta hafa staðið yfir svo mánuðum skipti en samt eru ekki nema þrjár vikur síðan ég var í Stuttgart. Þátttaka Spánverja er eins og fjarlæg minning, öll tilþrifin gleymd eins og þeir hafi aldrei verið með. En það breytist þegar farið verður yfir keppnina síðar.
Zidane kvaddi boltann á ógleymanlegan hátt, var algerlega trúr sínu undarlega eðli sem leysist úr læðingi með nokkurra ára millibili. Gaman fyrir hann að það skyldi gerast á 108. mínútu í úrslitaleik á HM. Leikurinn var samt hin besta skemmtun og ég get ekki sagt að ég hafi vorkennt Trezeguet og Henry mikið. Fæstir leikmenn vinna HM og þeim hefur tekist það einu sinni. Það sem kom kannski mest á óvart var hvað öll vítin voru góð og hvað markmennirnir voru langt frá því að verja, sérstaklega Buffon. Brottrekstur Zidane skipti hins vegar ekki sköpum, það voru miklu minni líkur en meiri að Ítalir fengju á sig mark á síðust 10 mínútunum og allar skyttur Frakkana skoruðu nema Trezeguet, sem hefði líklega engu að síður tekið víti.
Gaman samt af því hvað ég var oft nálægt í spánni fyrir keppnina, ég sagði að Ítalía, Holland, Argentína eða Spánn (þrjár síðustu óskhyggja) myndi vinna, Þjóðverjar færu í undanúrslit, Brassar ekki lengra en í undanúrslit jafnvel fyrr, Tékkar kæmust ekki upp úr riðlinum, Úkraína yrði mögulega spútniklið keppninnar (ókei, kannski ekki spútnik en komust lengst af þessum minni þjóðum) og að síðustu átti ég ekki von á að Englendingar gerðu rassgat. Verð hins vegar að viðurkenna að ég átti ekki von á svo góðum árangri Frakka en ég held að það hafi komið fleirum á óvart.
Úrvalslið keppninnar er svona: Buffon, Zambrotta, Cannavaro, Ayala, Lahm, Pirlo, C. Ronaldo, Viera, Riquelme, Klose og Torres.
Ástæðan fyrir því að Zidane er ekki með er að mér fannst hann einfaldlega ekki besti playmeikerinn í keppninni. Hann sýndi flott tilþrif á köflum en hann náði aldrei að dómínera leiki eins og hann gerði fyrir nokkrum árum. Nema á móti Brasilíu en Ghana gerði það líka svo það er ekki mikið að marka.
Nú bíður Suður Afríku búa það vandasama verkefni að feta í fótspor Þjóðverja. Strax eru uppi raddir um að þeir nái ekki að klára þetta í tæka tíð. Þeir eiga fáa boðlega velli, almenningssamgöngukerfi er varla til staðar, glæpatíðni er há osfrv. Kannski verður keppnin flutt til Ástralíu og þá fer maður að safna í ferðasjóð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.