7.7.2006 | 23:44
Pros and cons
Ég er að reyna að gera upp hug minn varðandi úrslitaleikinn á sunnudaginn. Helst hefði ég viljað að hvorugt liðið hefði unnið en það er víst lítið við því að gera núna. Það er því ekki um annað að ræða en að fara yfir kosti og galla liðanna:
Frakkland:
Kostir: Zidane og Makalele. Flissuðu að lélegum framburði á Laugardalsvelli 1998.
Gallar: Barthez, Henry, Wiltord. Þjálfarinn er algert fífl sem má helst ekki komast í sögubækurnar sem sigursæll þjálfari.
Ítalía:
Kostir: Pirlo, Cannavaro og Buffon. Lippi er heimsklassaþjálfari sem má bæta einni rós í gatið.
Gallar: Materazzi, Inzaghi, Iaquinta. Leiðinda leikaraskapur á köflum.
Hallast jafnvel að Ítalíu þar sem Zidane hefur unnið einu sinni en vonum bara að leikurinn verði skemmtilegur. Megi betra liðið vinna.
Hans Steinar Bjarnason fór á kostum í íþróttafréttum á NFS í kvöld. Tilvitnun: "Úrvalslið HM hefur verið valið og vekur athygli að einungis einn leikmaður er frá liði Englands og Brasilíu". Hvers vegna vekur það athygli? Satt að segja finnst mér það einum manni of mikið. Annað sem vekur athygli er að Riquelme er allt í einu í hópi vonbrigða keppninnar skv. 4 4 2. Hann lagði upp fjögur af ellefu mörkum Argentínumanna, var aðalmaðurinn hjá þeim í riðlakeppninni og átti nokkrar frábærar stungur gegn Mexíkó. Svo er hann tekinn út af á móti Þýskalandi í stöðunni 1-0 og er skyndilega vonbrigði. Ef Pekerman hefði þorað að spila sóknarbolta áfram, væri Argentína etv í úrslitum og Riquelme væntanlega hetja. En því er ekki að neita að Riquelme er eins og Óli Stefáns, eina stundina bestur í heimi en svo hverfur hann og virðist ekki hafa neinn áhuga á boltanum.
Athugasemdir
Hví komast Nesta, Gilardino og Gattuso ekki í pro-flokkinn hjá þér varðandi Ítalíu? Þú ert ekki nógu harður í rauðsvörtu trúnni á stundum, strákur! Og meðan kölski Inzaghi er í rauðsvörtu treyjunni skaltu blóta hann sem aðra heiðna skrattakolla, sama hvað. Stundum held ég að madridar-marengsinn sé farinn að flæða um of yfir Milan-trúna, og það er visst áhyggjuefni. Þarf að taka þig í skóla, pjakkur. Áfram Frankríki, að lokum.
Jón Agnar Ólason, 9.7.2006 kl. 02:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.