11.5.2007 | 00:34
Eiríkur rauði
Í kvöld sat örugglega e-r sniðugur þulur úti í Evrópu þegar Eiríkur nafni minn steig á sviðið: "Næst kemur frá Íslandi söngvari sem sennilega er fæddur milli fyrra og seinna stríðs. Gárungarnir í Helsinki kalla hann írska hrossið enda virðist hárgreiðslumeistarinn hans eiga við áfengisvandamál að stríða. Um lagið er það eitt að segja að fæst orð bera minnsta ábyrgð, en sennilega er óhætt að segja að það gæti verið lag eftir Meatloaf sem aldrei hefði komist inn á Bat out of Hell."
Verðum við ekki bara að sætta okkur við að lagið var einfaldlega ekki nógu gott og þó að nokkrir skandínavar þekki til hans er hann algerlega óþekktur annars staðar. Það er ekki nóg að hann sé vinsæll hjá blaðamönnum enda minnir það meira á vinsælustu stúlkuna í fegurðarsamkeppnum. Svo er það eiginlega staðreynd að á Eurovision skalanum eru austantjaldslöndin einfaldlega með betri lög. Ef e-r mafía er að störfum þá hefur hún að minnsta kosti betri smekk en Íslendingar. En ég neita því svo sem ekki að ég vildi Eirík áfram en sú ósk byggði á gamalli og góðri þjóðrembu.
Ég er reyndar dálitið ánægður með Sólveigu Höllu mína. Hún hélt með Georgíu og Búlgaríu en var nokk sama um Eirík þegar allt kom til alls. Hefði Georgía hins vegar misst af sæti væri staðan önnur. Eða eins og sagði í vikunni: "Ég vildi að Georgía væri ekki að keppa því ef það er að keppa og tapar það verð ég að gráta." Hún felldi hins vegar engin tár í kvöld og sofnaði sátt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.