Lið og nöfn

The_Strongest

Þau eru ekki mörg nöfnin á fótboltaliðum í Evrópu sem skera sig úr. Flest eru þau kennd við heimaborgina, eða hverfi innan hennar, og svo er gefið í skyn að þau séu sameinuð, konungleg eða keppi á íþróttasviði, sem eru jafnan ekki tíðindi, og þá oft með olympíuhugsjón að leiðarljósi. Dæmi um þetta eru Leeds United, Real Betis, Deportivo La Coruna og Olympique Lyon. Í Þýskalandi hafa menn stundum bætt við módelinu svo sem er hjá Schalke 04.

Þetta er kannski ekki jafn áberandi á Íslandi þar sem menn reyndu eitt sinn að gefa liðum heiti sem gæfi byr undir báða vængi s.s. Valur og Huginn en allflest tengjast samt bæjarnöfnum. Þór, Þróttur og Víkingur eru hins vegar alíslensk heiti sem fleiri en eitt lið bera með stolti.

Staðan er svipuð í Suður Ameríku sem óhætt er að segja að sé hin aðalheimsálfan í boltanum. Þar heita lið eftir hverfum eða borgum og reyndar stundum eftir háskólum. Nafngiftirnar verða reyndar aðeins frumlegri þarna suður frá því nöfn eins og Vasco da Gama, Colo Colo (eftir frægum indíána frá Chile), 2. maí og 12. október (sem eru greinilega hátíðisdagar í Paraguay) stinga upp kollinum hér og þar um álfuna.

Bestir eru þeir samt í Bólívíu. Í þessu landlukta landi þar sem spilaður er fótbolti í yfir 3500 metra hæð yfir sjávarmáli kennir ýmissa grasa þegar farið er yfir stigatöfluna í efstu deild.

Fyrst skal nefna Bolivar, sem er svo sem ágætt nafn á liði, þar sem það hefur verið nefnt í höfuðið á frelsishetju S-Ameríku. Það merkilega við þetta nafn er hins vegar að þeir hafi náð svo heilögu nafni enda getur enginn verið á móti Bolivar í Bólivíu. Gæti e-r verið á móti liði sem héti Jón Sigurðsson?

Næst er að nefna Jorge Wilsterman, sem heitir í höfuðið á frægum flugfrömuði á þessum slóðum. Nafnið minnir reyndar meira á vindlategund en knattspyrnulið og maður getur rétt ímyndað sér hvað þetta er óþjált í munni á vellinum: "Adelante Jorge Wilstermann, dududududu". Svo er líka spurning um flugkappa að fyrirmynd. FC Ómar Ragnarson? Me don´t zink zo.

Þá er komið að flottustu nöfnunum. Ég held að margir geti verið sammála mér að forvitnilegt er að í landi, þar sem yfir helmingur er indíánar sem tala Quechua og Aymara indíánamál og restin spænskumælandi að mestu leyti, skuli vera þrjú lið sem heita enskum nöfnum. Reyndar heitir eitt Blooming, sem er tiltölulega saklaust, en það sama verður vart sagt um hin tvö. Þar eru á ferðinni The Strongest og Destroyers. Hér er um að ræða geysilega tilkomumikil nöfn á fótboltaliðum, sérstaklega þegar haft er í huga að nær ómögulegt er að bera ST fram á spænsku án þess að setja E fyrir framan. Þeir eru því væntanlega kallaðir Ðí Estrongest, sem dregur vissulega dálítið úr áhrifamætti orðsins. Ég væri líka alveg til í að heyra Bólívíumann bera fram Destroyer. En spurningin er kannski, átti KISS e-n þátt í nafngiftinni?

Það vill svo skemmtilega til að þessi lið eru að spila í dag en ég veit ekki niðurstöðuna. En sennilega er það alltaf óheppilegt fyrir þessi lið að tapa. Þó ekki væri nema fyrir nöfnin.

Destroyers6a00c2251c59bcf21900c2251cf8a7549d-320pi

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband