26.6.2006 | 13:15
Leifsstöð
Árid 1986 kom ég síðast í gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Líklega var þessi flugstöð hálfgerður kofi en ég á góðar minningar þaðan. Þar keypti ég Donkey Kong í teppalagðri fríhöfninni, stóð augliti til auglitis við Roland Gift án þess að hafa hugmynd um hver hann væri og sat í panelklæddum biðsalnum meðan fullorðna fólkið dreypti á koníaki. Það besta var samt að labba út í vélina undir berum himnin þannig að lyktin af flugvélabensíninu fyllti vitin. Ég man enn þegar ég sat í vélinni þetta sinn og leit út um gluggann og sá Leifsstöð rísa hálfkláraða úti við sjóndeildarhringinn eins og Helstirnið. Þetta voru umbrotatímar en Leifsstöð tók manni opnum örmum og breyttist lítið næstu árin.
En nú er e-ð undarlegt að gerast. Reyndar má segja að stöðin sé tvískipt, annars vegar gamla súra kaffiterían sem selur horn með skinku og osti á 500 kall, barinn og fríhöfnin. Hins vegar er undarlegur heimur sem birtist manni þegar maður fer yfir e-a ósýnilega línu ca. hjá klósettunum. Allt í einu er maður kominn á alþjóðaflugvöll þar sem allir nema flugfreyjurnar líta út fyrir að vera útlenskir. Feitir ameríkanar í körfuboltabolum og eldgamlir Indverjar í hjólastólum. Bestir eru þó þybbnu íslensku tollverðirnir í svörtum búningum sem halda mætti að hafi verið hannaðir af e-m fógeta í miðríkjum Bandaríkjanna. Og með labbrabb tæki saumað í við öxlina. Svona er Leifsstöð í dag.
Athugasemdir
Daginn sem þú gefur út samantekt nostalgískra endurminningasketsa undir titlinum "Þá var gaman" labba ég mér út í bókabúð að eyða peningum. Þú ert helvíti naskur á að mála mómentið með orðum, það máttu eiga.
Jón Agnar Ólason, 26.6.2006 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.