8.4.2007 | 22:46
ÁTVR
Um daginn lögðu nokkrir þingmenn fram frumvarp um afnám á einkasölu ríkisins á áfengi. Ekki varð frumvarpið þó að lögum en látið var í veðri vaka að andstaða Vinstri grænna hefði verið helsta ástæða þess. Nú veit ég að margir þungavigtarmenn innan VG eru á móti slíkum breytingum en er það ekki svolítil einföldun að þeir geti einir komið í veg fyrir þetta. Eitthvað segir mér að andstaðan við slíkar breytingar eigi rætur víðar enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 16 ár án þess að slíkt frumvarp hafi verið lagt fram af e-alvöru. Þar af eru 12 ár með flokki sem hefur hægri og vinstri fót og stígur í þann sem hentar hverju sinni. Ætli þetta frumvarp hefði þá ekki runnið í gegn ef fyrir því væri raunverulegur áhugi hjá meirihluta á Alþingi.
Að sjálfsögðu á maður að geta hlaupið út í 10-11 hinum megin við götuna og náð í bjórkippu eða rauðvínsflösku þegar gesti ber að garði. En það eru nokkur atriði sem mér finnst ósvöruð.
Í fyrsta lagi langar mig að vita hvort ég muni bara geta fengið Lambrusco, Budweiser og Bláu Nunnuna í 10-11 eða verður stórgott úrval víðsvegar.
Í öðru lagi hef ég hvergi fengið svör við því hvort verðið verði svipað. Ein aðalástæðan fyrir háu verði á áfengi hér á landi er vegna tolla-og áfengisgjalds. Það er ósennilegt að þessi gjöld verði afnumin og er þá ekki alveg jafn líklegt að verðið hækki. Vissulega kemur e-r samkeppni til sögunnar en höfum við reynslu af því að samkeppni á Íslandi keyri niður verðið?
Ég man þegar ég var lítill og fór stundum með pabba í ríkið. Það var alltaf fullt af fólki inni sem gargaði eins og fýlar í fuglabjargi á einkennisklædda, geðilla ríkisstarfsmenn sem hlupu á eftir vodka-og ginpelum og afgreiddu þá svo yfir borðið í brúnum bréfpokum.
Síðan eru liðin allmörg ár og þjónustan hefur batnað mikið. Ég held jafnvel að úrvalið í ÁTVR sé nokkuð gott, a.m.k. öðru hverju. Ég fer hins vegar afspyrnusjaldan í vínbúð og er því varla sérfræðingur á þessu sviði.
En segjum sem svo að verðið muni hækka og þjónustan muni aðeins batna hvað varðar kaup á bandarískum Budweiser í 10-11, fyrir hvern er maður þá að berjast fyrir breytingunni. Baug?
Með fullri virðingu fyrir því fyrirtæki þá held ég að ég muni ekki leggja mikla áherslu á þetta atriði í komandi kosningum nema ég fái svör við ofangreindum spurningum.
Athugasemdir
Það er alveg áreiðanlega rétt að andstaða við þetta þingmál var til staðar í öllum flokkum og því algerlega út í hött að "kenna" einum flokki um að þingmálið var ekki afgreitt. Þegar á hólminn kom reyndist einfaldlega enginn áhugi á því hjá formönnum þingflokka að koma málinu áfram. Það hefðu forystumenn stjórnarflokkanna þó getað ef þeir hefðu haft áhuga, hann reyndist bara ekki vera til staðar.
Hvað hitt varðar að menn eigi að geta hlaupið út í næstu sjoppu eða sólarhringsverslun til að kaupa kippu af bjór eða léttvíni þá veit ég ekki hvort það yrði til bóta. Efast mjög um það. Reyndar hefur það aldrei háð mér að þurfa að fara í vínbúð til að kaupa vín, ekkert frekar en að þurfa að fara í raftækjaverslun til að kaupa raftæki, lyfjabúð til að kaupa lyf, bókabúð til að kaupa bók, blómabúð til að kaupa blóm o.s.frv. Er ekki bara allt í góðu að fara í sérvöruverslun eftir víni og bjór? Að mínu mati tryggir það einmitt almennilegt vöruúrval, hætt er við að Bónus, 10-11, Hagkaup og þessar verslanir væru bara með hinn ódrekkandi Budweiser (og alls ekki hinn eina sanna tékkneska Budvar'), bláu nunnuna sem þú nefnir og eitthvert slíkt glundur. Má ég þá heldur biðja um almennilega vínbúð frá ÁTVR!
Árni Þór Sigurðsson, 8.4.2007 kl. 23:03
Það er mat margra að ef bjór og léttvín fer í verslanir verði rekstrargrundvöllur ÁTVR ansi erfiður, enda sala sterkra drykkja á hröðu undanhaldi síðustu ár. Úrval í öðrum verslunum verður þunnt og einsleitt, krafan um veltuhraða tryggir það. Við gætum því skotið okkur í fótinn ef markmiðið er bætt aðgengi án þess að skerða úrval og þjónustu.
Það breytir því ekki að hinar og þessar sérverslanir hafa lagað sig að einhverju leyti að þörfum neytandans, lyfjabúðir eru gott dæmi. Það tvennt má bæta hjá ÁTVR, opnunartíma og verðlag.
Sævar Már Sævarsson, 9.4.2007 kl. 15:22
Áfengi er böl
Bubi Morteins (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.