7.6.2006 | 17:15
Plebbismi taka tvö
Sýnarvesenið fór þokkalega. Ég fæ Sýn á 1650 kall en er samt ekki fullkomlega sáttur því ég er viss um að tilboðið var til 5. júlí. En ég ætla ekki að missa af HM út af 1650 krónum íslenskum. Ráðlegg hverjum þeim sem fær tilboð frá 365 að fá allar tölur skriflega.
Ég veit ekki hvort eftirfarandi flokkist undir plebbisma en það er alla vega ekki kúl:
Að birta afmæliskveðju til Bubba Morthens á heilsíðu í dagblaði og reyna að vera persónulegur. Svona gera bara menn sem koma frá bæ þar sem meira að segja takkaskórnir eru frá Buffalo.
Að setja málverk og bleika sjöu e. Arne Jacobsen inn í herbergi kornungrar dóttur sinnar til að kenna henni að hafa góðan og dýran smekk. Ég hélt satt að segja að það væri hægt að vera með góðan smekk án tillits til þess hvort það hefði í för með sér mikil fjárútlát eður ei.
Að keyra á amerískum pallbíl í Reykjavík. Ég tek tilbaka að Toyota sé plebbaleg þó ég skilji ekki alveg þessar gríðarlegu vinsældir. Þetta eru ágætir bílar. En pallbíllinn er skelfilegur.
Ég treysti mér hins vegar ekki til að segja til um hvað er hip og kúl enda er ég sjálfur plebbi á framsóknarjeppa. En ég get greint plebba um leið og ég sé hann. Það fer ekki mikill tími í það enda sannast hið forkveðna: It takes one to know one.
Athugasemdir
Allflest í InnlitÚtlitVeggfóðuretcetc.. er plebbismi og smáborgaraskapur. Ég skemmti mér konunglega þegar ég sé Rúmfatalagerinn auglýsa til sölu allar vinsælustu vörurnar 2 mánuðum eftir að þær eru keyptar í Epal, nýtt dæmi háir barstólar!
En hvað er bleik sjöa e. arne jakobsen?
Unnur (IP-tala skráð) 8.6.2006 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.