1.6.2006 | 16:21
Sveitalaugar Topp tíu
Nú er sumarið komið með roki og vætu og þá er ekki seinna vænna en að byrja að spá í sveitalaugar fyrir sumarið. Ég ætla að setja upp lista fyrir amatöra og þeir sem leggja land undir fót geta þá etv nýtt sér þessar upplýsingar. Þannig verður fullkomnun náð í fríinu. Í grófum dráttum hefur góð sveitalaug þessa kosti: Góð staðsetning með fögru útsýni, gamaldags búningsaðstaða með upprunalegum áhrifum, góðir pottar (algert lykilatriði) og síðast en ekki síst verður laugin að fylla mann góðum minningum og þ.a.l. skiptir veðrið og önnur stemmning öllu máli. Þá er mikilvægt að laugin sé ekki í stærra þéttbýli en 1000-2000 manns, helst færri. Eftirtaldar laugar uppfylla þessi skilyrði, eitt eða fleiri:
Húsafellslaug: Lengi vel var þessi laug eins og vatnsrennibrautargarður frá sturlungaöld. Frábærir heitir pottar þar sem vatnið virtist koma beint úr borholunni, rennibraut og sundlaug. Allt lá þetta hvert ofan á öðru í miklu kaosi og ekki má gleyma búningsaðstöðunni sem var þröng og léleg eins og góðra sveitalauga er siður. Nú hefur þessu að e-u leyti verið breytt, ný búningsaðstaða og e-ð fleira en andinn lifir að mestu.
Hrísey: Prófaði þessa í fyrsta sinn í fyrra og var sáttur. Mjög góður pottur með frábæru útsýni inn Eyjafjörðinn, laugin er fín og það sem kannski er ekki síst er að búningsaðastaðan lítur út fyrir að vera ekki degi yngri en 80 ára. Reyndar er algengur vandi í þessari laug að konur þvælist "óvart" inn í karlaklefann en það er skyggir þó ekki á almenna ánægju.
Vaðnes: Kannski er þetta besta minnsta sundlaug landsins. Sumir myndu kalla þetta pott en þeir sem til þekkja kalla þetta Sundlaugina. Frábær staðsetning úti í móa. Ekki opin almenningi.
Varmaland: Það er alltaf gaman að koma í laugar sem tengjast heimavistaskólum eða stofnunum í sveitinni. Búningsaðstaðan er svona seventies steypaklumpa hönnun með gulum flísum. Það er því bullandi nostalgía í gangi en sturturnar eru lélegar. Brilliant heitur pottur, mjög óvenjulegur og frábært útsýni yfir Borgarfjörð og Skarðsheiði.
Flosalaug í Öræfum: Á þessu svæði er lítið um heitt vatn en bændurnir leystu vandann með því að hita laugina með sorpbrennslu. Þetta fer ekki á milli mála þegar maður keyrir upp að og eflaust myndu e-r PR menn telja þetta lélega markaðssetningu en ég get fullvissað fólk um að þessi laug er vin í eyðimörkinni.
Seljavallalaug: The mother of all country pools!! Laugin er reyndar formlega lokuð vegna heilbrigðiseftirlits en það getur hver sem er tekið sprett, kjósi hann svo. Ég kom þangað síðast með Sillu og Sólveigu Höllu 2002 eða 2003 og þá hafði e-r útlensk stelpa tjaldað upp við laugina og svamlaði þarna í rigningunni.
Vopnafjarðarlaug við Selá: Þessi er einfaldlega besta sveitalaug á landinu. Staðsetningin við bakka Selár er frábær, það er ekkert rafmagn, húsið er upprunalegt og svo hefur heilmikið verið lagt í pottana og laugina. Þegar við fórum í þessa laug fyrir nokkrum árum hafði e-r kúkað í hana daginn áður og verið var að láta renna í hana aftur. Hún var því formlega lokuð en þegar við ætluðum að snúa við kom miðaldra kona með litað hár og í hlébarðadressi til okkar og sagði að það væri í góðu lagi að skella sér í hana. Sem við og gerðum. Svona á þetta að vera.
Reykholt í Biskupstungum: Það verður að vera laug í Tungunum. Á þessu svæði eru nokkrar góðar t.d. á Flúðum en þessi fær mitt atkvæði af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi spilaði ég mjög eftirminnilegan fótboltaleik í íþróttahúsinu við sundlaugina fyrir rúmum tveimur árum og á eftir tók laugin við. Síðan rámar mig í að þegar ég var lítill hafi ég farið með foreldrum mínum í þessa laug og fengið Flórída súkkulaði á eftir. Í gulum umbúðum með pálmatré. Góður pottur, rennibraut, sveitasæla. Allur pakkinn!
Víðilundur við Ásbyrgi: veit ekki hvort ég sé með rétt nafn en þessi laug er allavega á leiðinni frá Ásbyrgi að Kópaskeri. Frekar lítil laug og einn pottur en heillandi að sama skapi. Fín aðstaða að öllu leyti.
Hveragerði: Frábær laug sem mun ávallt lifa í hjörtum meðlima Lárusar Rist. Einstök hönnun, staðsetning, pottar, gufa og sundlaugin sjálf er afbragð.
Athugasemdir
Og:
Reykjaneslaug við Ísafjarðardjúp. Extra-old búningsklefar og rennandi blautu gólfi, 200m útí laug og svo er laugin bara riiisastór steypt gímald með smá mosa á botninum; enginn klór og kostar ekkert.
Suðureyrarlaug við Súgandafjörð, eina útilaugin á norðanverðum Vestfjörðum. Æðisleg, bara eins og á Seltjarnarnesi: kaffi á bakkanum í góðu veðri. Frekar ný laug svona því sú gamla skófst burt í e-u snjóflóðinu, en samt sveitasælulega ný.
Takk fyrir þessa úttekt, verð eiginlega að prenta þetta út til að eiga í bílnum :-)
Laulau (IP-tala skráð) 1.6.2006 kl. 16:35
Ég er pínu fúl! var búin að kommentera heila ritgerð hér en hún birtist ekki....
og það ekki í fyrsta skiptið... aaaalveeeg að gefast upp á þessu.
Laulau (IP-tala skráð) 1.6.2006 kl. 23:47
Þegar ég "þvældist óvart" inní karlaklefann í Hríseyjarlauginni vakti það ómælda ánægju allra viðstaddra, ekki síst þína!
Annars sammála öllu því sem fram hefur komið þótt ég hafi ekki heimsótt þær allar. En maður gagnrýnir ekki laugar sem eru lokaðar "almenningi", það eru ekki allir VIP eins og þú! Svo langar mig rosalega að bæta við lauginni á Neskaupstað, frábær laug og pottur og búningsklefar eldgamlir og rúma 3 í einu! Og svo uððita laugin á Dalvík, allt tipptopp þar! Svo þarf greinilega að halda til Vestfjarða í laugavíking!
Unnur (IP-tala skráð) 2.6.2006 kl. 09:51
Laugin á Nebbó átti að vera með en þar sem verið er, og væntanlega búið að, byggja við hana verð ég að mæta aftur og kanna hvort hún hafi nokkuð tapað e-u af sínum töfrum. Ef ekki er hún næst inn á listann.
EG, 2.6.2006 kl. 10:04
Ég skrifaði einmitt um laugarnar á Vestfjörðum, þ.e. tvær allavegana... það er á Reykjanesi v. Ísafjarðardjúp. Ristastór steinsteypt laug með engum klór og smá svona mosa á botninum. Búningsklefarnir með bekkjum og snögum og blautu gólfi um 200 m. gangur út í laugina. Opin öllum ókeypis!
Svo er það eina útisundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum. Hún er á Suðureyri. Frekar nýleg en samt skemmtilega sveitó með góðum pottum og lélegum sturtum. Gott ef það var ekki snjóflóð sem hrifsaði þá gömlu burt fyrir nokkrum árum? Þarna er hægt að fá kaffi á bakkanum eins og á Seltjarnarnesinu.
Á Tálknafirði er náttúrulega yndislegt að tjalda en Sundlaugin þar er risastór með æðislegri rennibraut. Búningsklefarnir tilheyra líka íþróttahúsinu.
Einu sinni tjölduðum við á Drangsnesi og fórum í sund á Laugarhóli. Það var sveitalaug, alveg ein sturta og eitthvað, man það ekki. En laugin stóð á e-s konar bjargbrún þ.a. vatnið gusaðist bara niður bratta hlíðina. Fallegt útsýni með eindæmum.
Þetta man ég í augnablikinu frá Vestfjörðum.
Takk fyrir þennan lista Eiki minn. Ætla að prenta hann út og geyma í Vegahandbókinni.
Laulau (IP-tala skráð) 2.6.2006 kl. 20:37
Sammála þér Eiríkur minn, en ég vil bæta við einni laug og það er sundlaugin nyrst á Ströndum, þ.e.a.s. eins norðarlega og hægt er að keyra, minnir að hún heiti Krossneslaug. Hún er alveg út í fjörunni við Atlantshafið og opin öllum, maður situr bara og horfir út á hafið. YNDISLEGT !!
Ása (IP-tala skráð) 6.6.2006 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.