4.3.2007 | 23:45
Í karakter
Einn er sá ósiður sem hefur heltekið fréttatíma og dægurmálaþætti, einkum í sjónvarpinu. Um leið og hann er borinn á borð fyrir áhorfendur, engist maður í sófanum og reynir að teygja sig í fjarstýringuna. Sé hún ekki í sjónmáli geta afleiðingarnar verið alvarlegar, allt frá lamandi bjánahrolli upp í mjög slæma líkamlega áverka eftir að maður hefur skallað stofuvegginn ítrekað til að losna undan hryllingnum.
Ég er að sjálfsögðu að tala um viðtal við leikara sem er "í karakter". Hver er það sem tekur ákvörðun um að bjóða blásaklausum áhorfendum upp á Jóa úr Jóa&Góa tala Oxford ensku í viðtali eða áhugaleikara úr Kvennó þykjast vera 19. aldar hefðarfólk í Kastljósinu . Er það leikarinn sem telur þetta góða auglýsingu sem gefi áhorfandanum möguleika á að færast nær verkinu? Eða er það sjónvarpsmaðurinn sem haldinn er þeim ranghugmyndum að það sé e-r von í helv... að samræður milli hans og leikarans geti e-n tíma talist eðlilegar? Stutt heimatilbúið dæmi:
Fréttamaður: Ég er hér með Hamlet hjá mér. Hamlet, segðu mér, hvernig ertu núna?
Hamlet (t.d. Atli Rafn Sigurðarson í búningi með dramatískri, tilgerðarlegri leikhúsrödd) : Að vera eða vera ekki, það er spurningin!
Ef maður er ekki búinn að stoppa þarna er hætta á ofangreindum áverkum.
Kæra sjónvarpsfólk! Ég bið ykkur um að láta af þessum ósið nú þegar. Ef leikarar kjósa að halda þessum skrípaleik áfram finnið þá einhvern annan til að tala við. Jafnvel ljósamanninn eða hvíslarann, svo lengi sem það er allt annað en leikari "í karakter".
Ef hins vegar gengur illa að finna eldri "í karakter" upptökum hlutverk vil ég benda á að þær eru væntanlega ómetanlegar fyrir leyniþjónustur og glæpasamtök. Gamlar pyntingaraðferðir eins og raflost í eistun verður barnaleikur í samanburði. Upptaka af Jóa, mínus Gói, eða Þjóðleikhúsálfinum "í karakter" mun opna flóðgáttir leyndarmála og upplýsinga, jafnvel hjá harðsvírustu glæpamönnum heims.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.