Óskar frændi

Það eru nokkuð mörg ár síðan ég hætti að  hafa áhuga á óskarsverðlaununum. Ekki vegna þess að þetta sé verri hátíð í dag heldur en fyrir fimmtán árum heldur einfaldlega vegna þess að það er tilgangslaust að keppa um bestu mynd eða besta leikara enda getur slíkt mat aldrei verið annað en huglægt. Vissulega hefur þessari óskilgreindu akademíu oft tekist að hitta í mark við val á bestu mynd og margar þeirra eru orðnar klassískar. Er þar helst að nefna fyrstu og aðra myndina um Guðföðurinn, Arabíu Lórens (skemmtileg útgáfa sem ég lærði í MR), Kúrekinn á malbikinu, Hvíta húsið og Gaukshreiðrið (vegna málverndar hef ég snarað þessu yfir á íslensku). Oftar sat klassíkin samt eftir með sárt ennið. Steini vann árið sem Allir menn forsetans og Leigubílstjóri voru tilnefndar, 2001 fékk ekki einu sinni tilnefningu þegar dans og söngvamynd um Óliver Twist sigraði og síðast en ekki síst vann Mín fagra frú árið sem Dr. Skrýtinást kom út. Þá verð ég að viðurkenna að þrátt fyrir aðdáun mína á Woody Allen þá hefði Stjörnustríð mátt fá verðlaunin 1977 í stað Önnu Hall en Hanna og systur hennar þá tekið verðlaunin 1986 í stað Hersveitar.

Val á bestu leikurum hefur hins vegar oftar tekist vel og ég er sérstaklega ánægður með að Forest Whittaker hafi landað óskarnum í ár enda er hann þar með opinberlega langfrægasti einstaklingurinn sem ég hef séð með eigin augum. Svo er hann líka fínn leikari.

Ástæðan fyrir því að ég nenni að velta óskarnum fyrir mér núna er af öðrum toga. Ég sá nefnilega í kvöld alveg skelfilega umfjöllun í Kastljósinu um kjólana á hátíðinni. Staðreyndin er sú að hópur fólks sem kallar sig eða vill láta kalla sig tískulöggur er farin að halda þvi fram, að því er virðist í fúlustu alvöru, að þessi hátið sé í raun farin að snúast meira um fatnað en kvikmyndir. Tískulöggur eru yfirleitt samkynhneigðir karlmenn með aflitað hár og þeim er að sjálfsögðu velkomið að spá í kjólana. Fyrir hina er rétt að minna á að þetta snýst um bíó. Þetta er eins og að segja að HM í fótbolta snúist ekki lengur um fótbolta heldur hvaða áhorfendur eru í frumlegustu búningunum. Ef ég fæ hins vegar e-n tíma spurningu í Trivial um það hver hefði verið í laxableikum Oscar de la Renta kjól á óskarnum 2004 þarf ég kannski að íhuga þann möguleika að éta þessi orð ofan í mig. En verði spurt hver mætti í dauðum svan er það ekki að marka. Það var bara snilld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spurning dagsins:

Hver var í laxableikum Oscar de la Renta kjól á óskarnum 2004?

Unnur (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband