4.2.2007 | 21:28
Íslensk kvikmyndaplaköt
Rakst fyrir tilviljun heimasíðu stráks sem hefur mikinn áhuga á íslenskum bíómyndum og hefur sett upp gagngrunn fyrir íslensk kvikmyndaplaköt á síðuna sína. Þegar ég var að skoða þetta datt mér í hug að setja upp lista yfir fjögur bestu og fjögur verstu plaköt íslenskrar kvikmyndasögu en ég miða við vorið 1979 sem upphafstíma enda lítið að gerast fyrir þann tíma.
Verstu:
Í fjórða sæti er Englar alheimsins. Hugmyndin er la la en útfærslan er hörmuleg. Af hverju líta þessir snarbiluðu menn eins og þeir séu að stilla sér upp fyrir myndatöku fyrir kynningarbækling Þjóðleikhússins. Virðist vera byggt á gömlu englamyndunum en kemur því miður út eins og þeir séu allir að hugsa: Spegill spegill herm þú mér,hver er fallegastur á fjölum hér??
Í þriðja sæti er Börn Náttúrunnar. Veit ekki alveg hver hugmyndin var en möguleikarnir voru án efa nokkrir. Í staðinn virðist Friðrik Þór hafa fengið e-n félaga sinn úr Framsókn til að líma ljósmyndir úr myndinni á skreyttan bláan flöt og svo bitið höfuðið af skömminni með því að líma vonda ljósmynd af gamla parinu í miðjuna í úrklippustíl.
Í öðru sæti er Magnús. Myndin er þokkaleg á svona séríslenskan hátt en þetta plakat er viðurstyggð. Í fyrsta lagi er myndin gerð á hátindi pastellitaæðis Íslendinga eins og sjá má á fölbleikum litnum. Það versta er að þetta minnir meira á fiskibollusósu. Þá koma þessar sniðugu skopmyndir eins og skrattinn úr sauðaleggnum en er hins vegar í góðu samræmi við leturgerðina sem er í síbreytilegu formi og litum. Ef þetta væri heimasíða væri hún eins og síðan hans Borat og Tyrkjans frá Izmir.
Í fyrsta sæti er stórvirkið Gullsandur. Ef e-ð gæti verið eins og áðurnefndar heimasíður þá er það þetta plakat enda eru litlar líkur á því að e-r muni standa upp og garga " Tímalaus snilld"!!! um þessa hönnun. Edda B. eru hálf rolluleg niðri í horninu meðan Pálmi G. steinliggur sem hinn útsmogni úlfur úr Rauðhettu. Fánarnir efst gera lítið fyrir heildarmyndina en einna best er að það skyldi ekki hvarfla að neinum að gult á hvítu kemur sjaldan vel út. Ókei þetta var 1984 en það er ekki næg ástæða fyrir þessu flaki.
Bestu
Í fjórða sæti er Africa United. Hef ekki sáð myndina en plakatið er mjög vel útfært og byggt á góðri hugmynd. Gæinn sáttur en kappklæddur og sauðkindin aldrei langt undan.
Í þriðja sæti er Mávahlátur. Þetta er kannski ekki stórkostlegasta plakat allra tíma en þetta er nokkuð vel gert, liturinn flottur og síðast en ekki síst er þetta tilbreyting frá 99% íslenskra plakata þar sem búið er að photosjoppa saman atríðum úr viðkomandi mynd.
Í öðru sæti er Nýtt líf. Þetta er klassískt plakat, þrungið merkingu (þorskur á þurru landi) og svo er þetta órjúfanlegt myndinni sjálfri.
Í fyrsta sæti er Punktur punktur komma strik. Fyrir utan að vera ein uppáhalds íslenska myndin mín er þetta óvenjugott plakat. Letrið er skemmtilega klunnalegt í seventís stíl enda virðist hugmyndin vera þaðan komin.
Athugasemdir
Vel er hér kveðið, Sveinki, en þetta eru jú þínar ær og kýr. Ég skellti uppúr þegar ég sá Magnús og samnefnt plakat á ný, ég hló mikið að þessu þegar myndin var gerð '89 eða '90 og ef eitthvað er versnar þessi presentasjón með tímanum. Ömurðin uppmáluð. Toppurinn er svo auðvitað svipurinn á Magnúsi - einhvers konar "bíddu nú við ... var það Anthony Hopkins eða Kevin Kline sem lék í The Plumber?! Æi man þa ekki... " - svipur.
PS - óskalagið þitt er komið inn á spilarann hjá mér. Ég verð illa svikinn ef þú hleypur ekki beint út á fótboltavöll eftir þessa stuðspilun!!
Jón Agnar Ólason, 6.2.2007 kl. 23:53
"photosjoppa saman atríðum", "Hef ekki sáð myndina".... Ef eg vaeri salfraedimenntadur gaeti eg orugglega greint eitt og annad freudiskt ut ur tessum innslattarvillum tinum.
Kjartan (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 19:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.