Færsluflokkur: Bloggar

31 árs spúsa

Elskuleg eiginkona mín á afmæli í dag og var því vakin upp í morgun með afmælissöng, gjöfum og tertu. Reyndar var Sólveig Halla svo spennt fyrir þessari athöfn að hún vakti mig kl. 3:42 og aftur kl. 6:30 til að drífa mig framúr í undirbúninginn. Sigrún Emilía var hins vegar rólegri yfir þessu öllu saman en krafðist þess samt að taka þátt og var þar af leiðandi sótt inn í herbergi.

Til hamingju með daginn enn og aftur Silla mín.


Hhhmmmm 2

Önnur spurning. Spurt er úr hvaða lagi er þetta textabrot og hver flutti. Til að koma í veg fyrir Google svindl hef ég ákveðið að snúa brotinu lauslega yfir á mína ylhýru íslensku. Þýðingin er þ.a.l. ekki upp á marga fiska.

"Jæja ég er búinn að fá nóg, ég ræð ekki lengur við þetta, ætlað pakka niður og fljúga, bæ bæ. Eða alls engan veginn"

Eftir þetta kemur svo viðlagið.

Vísbending: Lagið er alls ekki nýtt og líklega á svipuðu reki og myntbreytingin. Hljómsveitin kemur frá N- Ameríku. Annars má finna nafn lagsins ef maður raðar saman orðum úr textanum að ofan og snyrtir aðeins til.


Hhhhmmm

Ein spurning:

Hvaða eiga Þórhallur Gunnarsson í Kastljósinu, Samúel Örn Erlingsson framsóknarmaður, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Davíð Garðarson athafnamaður og Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn sameiginlegt?

Verðlaun ekki af verri endanum.

 

 


STÓRLEIKUR

Heyrði frábæra auglýsingu í gær. Þulurinn æpti í sjónvarpinu og adrenalínið byrjaði að flæða: "STÓRLEIKUR Í DEILDABIKARNUM, MANCHESTER UNITED TEKUR Á MÓTI SOUTHEND UTD."

Tvær athugasemdir við þetta. Í fyrsta lagi er deildarbikarinn hvorki deild né bikar eins skrýtið og það er, tvær aðrar keppnir hafa þann heiður. Með öðrum orðum er þessi keppni hvorki fugl né fiskur. Í öðru lagi getur orðið stórleikur og Southend United aldrei farið saman.

Ég vil benda Sýnar mönnum á að kyngja stoltinu og átta sig á að þeir sýna ekki stórleiki frá Englandi nema þegar ensk lið spila í Meistaradeildinni. Annars missir orðið stórleikur merkingu og þá er nú litill afgangur.


Diskófílingen

Fyrir þá sem ekki hafa séð þessa snilld. Veit ekki hver hápunkturinn er en það er erfitt að gera upp á milli skítugu strigskóna, lagsins sem spilað er undir meðan dansinn dunar eða "Spassla" sporin í lokin. Mér skilst að maðurinn heiti Ake Blomqvist og sé Heiðar Ástvalds þeirra Finna. Dálítið langt síðan ég sá þetta síðast en þetta er alltaf jafnfyndið og ég mæli með því að lesendur nái sé í rétt forrit til að spila myndbönd af youtube ef þeir eru ekki þegar með það.

http://www.youtube.com/watch?v=ZJj6d5QSYaE


Nostalgía nr. 6. Goombay danceband

Á æskuheimili mínu var til spóla með Goombay danceband. Á henni var að finna þetta snilldarlag sem er sennilega besta gobbedígobb diskólag (sungið af Þjóðverja á ensku) sem sögur fara af. Auðvitað fann ég þetta á youtube sem er snilldarsíða. Takið sérstaklega eftir hljóðnemanum.

http://www.youtube.com/watch?v=3UBxZKbYoAg

 

15979600


Elskan

Hvaðan kemur fólkið sem þarf sífellt að ávarpa mann "elskan". Þá er ég ekki að tala um mömmu manns eða nánustu vini og ættingja. Ég á við manninn í fiskbúðinni eða kúnnann í vinnunni sem maður þekkir ekki neitt. Er ekki e-ð óeðlilegt að ávarpa lögmanninn sinn "elskan". Einn sá besti var einmitt í Fiskbúðinni okkar, fyrst á Skemmuvegi og svo á Vegamótum á leiðinni út á Seltjarnarnes. Maður mætti í sakleysi sínu til að kaupa ýsu í mexíkósósu á mánudagseftirmiðdegi og karlmaður um sextugt byrjaði að svara eins og hann væri að daðra við mann. "Viltu 500 gr., elskan?", "Það gera 900 kr. elskan". Ég legg til að notkun á þessu orði verði bönnuð með lögum í samskiptum milli ókunnugra. Þegar það hefur náðst í gegn má bæta "ljúfur" og "vinur" við. Fleiri tillögur vel þegnar.

Dublin

Um daginn var ég að velta vöngum yfir því hvað Íslendingum virðist vera lagið að gera hluti plebbalega. Dublin virðist vera eitt fórnarlamb þessarar séríslensku lagni. Ég stakk eitt sinn upp á því í vinnunni að farið yrði þangað í árshátiðarferð en við það byrjaði einn að fussa og sveia. Sagðist allt eins geta farið upp á Akranes á árshátíð. Mér þótti leitt að heyra þessa afstöðu enda hefur mig lengi langað til Írlands og ekki síst Dublin. Skýringa á þessari ímynd er þó ekki langt að leita enda hefur verið mynduð saumklúbbaloftbrú milli Íslands og Írlands á vorin og haustin í meira en áratug.

Nú grunar mig að íbúum Dublin þætti ekki sannfærandi að Reykvíkingar líktu borginni þeirra við Akranes. Það er nefnilega þannig að í bókinni The book of cities, sem gefin er út af Lonely Planet ferðabókarisanum, nær Dublin inn á Topp 30. Er það byggt á sérþekkingu starfsmanna LP en einnig voru ferðalangar beðnir um að senda inn sínar tillögur. Ekki þarf að fjölyrða um það að margar stórborgir sitja neðar á listanum og er þar helst að nefna allar borgir á Norðurlöndum, Chicago, New Orleans, Los Angeles, Toronto, Mexíkóborg, Skt. Pétursborg, Peking, Shanghæ, Kaíró, Aþena, Vín, Madrid o.s.frv. Nú ætla ég ekki að falla í þá gryfju að telja þennan lista óskeikulan og tæmandi. Hann er hins vegar vísbending um að e.t.v. bjóði Dublin upp á meira en fullar kellingar frá Hellissandi með bjórflösku í annarri og Top Shop poka í hinni.

 

main_dublin


Tekinn

Verð að hrósa Sauðkræklingnum fyrir þennan þátt. Bubbi var sjálfum sér líkur í gær, ryðjandi út úr sér frösum eins og hann væri enn á færibandinu. Hver annar en þessi mikli meistari myndi láta út úr sér,´"ég er bara manneskja eins og þú og ég" og klassíkina "þú ert bara lítill tappi sem ert krumpaður að innan."

Eiður

Það var ýjað að því í athugasemd á þessari síðu að það hlakkaði í mér vegna ófara Eiðs Smára. Ekkert er hæft í því, Eiður Smári má vera markahæsti leikmaður Barcelona og besti leikmaður deildarinnar svo lengi sem þeir koma ekki í veg fyrir að Real Madrid hirði e-a dollu í vetur. Hins vegar finnst mér dálítið fyndið hvernig Smárinn er algerlega hafinn yfir gagnrýni hér á landi. Í leik á laugardaginn fékk Eiður dæmda vítaspyrnu eftir að "brotið" var á honum. Í íþróttafréttum á Stöð 2 var ekkert minnst á að um vafasama vítaspyrnu hafi verið að ræða. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi hefði dómarinn mátt hugsa sig tvisvar um. Eiður fleygir sér niður eins og hann hafi verið skotinn en snertingin er lítil sem engin. Hvað hefði verið sagt ef Suður amerískur leikmaður hefði gert það sama?

http://www.youtube.com/watch?v=4QMkB6Hh8vE

Svo vil ég benda þeim sem missa af mörkum á neðangreinda síðu:

http://101greatgoals.blogspot.com/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband