Vísitala

Vísitala er ljótasta orðið í íslensku. Það er ekkert jákvætt við vísitölur, þær eru bara mælikvarði á e-r hreyfingar í efnahag þjóða.

Sýnu verst er svokölluð greiðslujöfnunarvísitala sem kynnt var sem hluti af aðgerðaráætlun ríkissjórnarinnar til bjargar heimilum landsins. Þessi vísitala hefur þann tilgang að lækka greiðslubyrði heimila tímabundið meðan verstu efnahagsvandræðin ganga yfir en að þeim tíma loknum munu verðbætur leggjast á lánið í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. 

Þar liggur hundurinn hins vegar grafinn fyrst og fremst. Það er sú kjaraskerðing sem verður þegar lánin hafa vaxið langt upp fyrir verðmæti fasteigna og stór hluti ungra fjölskyldna í landinu verður tæknilega, og jafnvel raunverulega, gjaldþrota. Hins vegar hefur ríkisstjórnin meiri áhyggjur af afdrifum Íbúðarlánasjós og lífeyrissjóðanna ef verðtryggingin verður tekin úr sambandi.

Hingað til hefur fólk fengið að frysta lán sín hjá Íbúðarlánasjóði lendi það í erfiðleikum. Tímabundið andrými kemur hins vegar ekki í veg fyrir að afborgarnir skelli aftur á fólki og þá af meiri þunga en áður. Mér sýnist greiðslujöfnunarleið vera sama leið og hefur staðið til boða nema bara í nýjum pakkningnum.

Ég skil vel að sumir telji að verðtrygging verði að halda sér. Það er hins vegar neyðarástand og þá gengur ekki að hagsmunir lífeyrissjóða séu snara um háls þúsunda Íslandinga. Það verður þá bara í framhaldi að stokka upp hvernig greitt er úr sjóðunum, draga úr greiðslum til þeirra sem eiga skuldlausar eignir og mikið sparifé en halda lífinu í þeim eldri borgurum sem standa verr. Það gengur ekki að henda 200 milljörðum í peningamarkaðssjóði eins og ekkert sé sjálfsagðara en þykjast svo ekki geta fundið betri lausn en auma greiðslujöfnunarvísitölu og mánaðarlegar greiðslur barnabóta.

En það sem er hins vegar undarlegast er að ráðamenn skuli ekki átta sig á því að fólk mun hætta að greiða lánin þegar allt er komið í í mínus. Skilja svo lykilinn eftir í skránni. Það vantar ekki leigushúsnæði í borginni og margir fara erlendis til að freista gæfunnar. Fjöldagjaldþrot er ekki möguleiki og þá er ég hræddur um að muni tapast stór hluti af verðbótunum sem lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður lifa á.

Ein leið til að takast á við vandann er að skipta út þessari gömlu kynslóð sem hefur ráðið hér öllu í 20 ár með ömurlegum árangri. Út með Davíð, Geir, Árna Matt, Össur, Ingibjörgu Sólrúnu, Steingrím J., Ögmund og fleiri. Inn með Dag, Guðfríði Lilju, Svandísi Svavars, Katrínu Jakobs, Kristrúnu Heimis, Bjarna Ben, Gísla Martein, Pál Magnússon og e-a aðra sem fólki dytti í hug. Upptalninginn er ekki endanleg og alls ekki mínir óskaðilar í öllum tilvikum (enda kýs ég ekki framsókn og sjallana) en þetta væri leið til að fá nýtt blóð í landsmálin. Einstaklingar sem væru líklegri en aðrir til að vinna af heiðarleika og fagmennsku. Liðið sem er fætt í kringum 1950 hefur att okkur út í hyldýpi fullu af skít. Það verður að fara frá, annað hvort sjálfviljugt eða með aðstoð þjóðarinnar.

Nýtt fólk getur ekki gert verri hluti og ekki væri verra að fá nýtt stjórnmálaafl með eðlilegar áherslur og traustvekjandi fólk.

Ég er eins og sjá má orðinn verulega þreyttur á getuleysi og eiginhagsmunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Inn með Dag og Gísla Martein? Úff nei takk!

Lára (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:35

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Þeir sem greiða 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóði - - til að tryggja þeim sem eiga slatta af peningum skaðleysi - þeir geta ekki orðið í vandræðum með að tryggja húsnæðiskaupendum frystingu á verðtryggingu - - við septembervísitöluna - - þannig að við getum skipulagt neyðarleið okkar út úr verðtryggðu krónunni   og okurvöxtum og inn í alvöru mynt eða amk. í skjól af EVRU með stuðningi Evrópska Seðlabankans

Benedikt Sigurðarson, 21.11.2008 kl. 22:44

3 Smámynd: EG

Ég hef trú á Degi þó ímynd hans hafi versnað við alla vitleysuna í borginni en á þeirri vitleysu bar hann einna minnsta ábyrgð. Hans hörðustu andstæðingar viðurkenna jafnvel að hann sé heiðarlegar og það eru kostir sem ég met meira en margt annað núna.

Gísla Martein myndi ég hins vegar aldrei kjósa en held að ef það verði að vera Sjálfstæðisflokkur sé hann ekki verri en hver annar. Í grunninn held ég að hann sé ekki slæmur náungi sem er því miður ekki hægt að segja um alla sjálfstæðismenn. 

Ég mun hins vegar fagna öllu nýju, öflugu fólki inn í stjórnmálin. Skoðun mín gengur fyrst og fremst út á það að losa þá aðila út, sem hafa verið hér ríkjandi síðustu 15-20 árin, svo e-ð nýtt geti gerst.

EG, 21.11.2008 kl. 23:39

4 identicon

með fullri virðingu fyrir þér Benedikt, en ég skil ekki orð af því sem þú skrifaðir

Gunni (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband